Deprecated: Hook custom_css_loaded is deprecated since version jetpack-13.5! Use WordPress Custom CSS instead. Jetpack no longer supports Custom CSS. Read the WordPress.org documentation to learn how to apply custom styles to your site: https://wordpress.org/documentation/article/styles-overview/#applying-custom-css in /var/www/virtual/ghs.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6078
Utan Garðs (Out Sider) – Photographer Documentary Gísli Hjálmar Svendsen GHs

UtanGarðs

“Drykkjusýki er sjúkdómur. Sjúkdómur sem ekki verður læknaður að fullu, aðeins gerður óvirkur. Óvirkur þannig að lifa má eðlilegu lífi á meðan áfengis er ekki neytt. Hver sá maður, sem stendur andspænis ólæknandi sjúkdómi, er grafið hefur undan félagslegri velferð hans og rænt hann stjórn á eigin lífi, er kominn í ógöngur. […]”
(Jóhannes Bergsveinsson læknir, úr formála AA-bókarinnar)

Flogið úr Feni Nætur

Svo skýrt tala ljósmyndir Gísla Hjálmars sínu máli að inngangsorð eru með öllu óþörf. Þess vegna er best að skrifa þau áður en einhver kemur og strokar þau út og ef einhver gerir það þá er það bara þannig. Myndirnar fanga veruleikann, veiða hann í net sín, með þeim hætti að okkur skortir orð, mig skortir orð, þig skortir orð. Þó að þær lýsi rótleysi eiga þær ættliði aftur í tímann; tilfinninguna sem miðlað er af listfengi og smekkvísi. 

En hvað segir vindurinn? Hvenær mun hann taka til máls? Hvað segir þögnin? Af hverju þegir hún en hrópar um leið? Sumir eiga ekki neitt en aðra skortir allt nema pening. „Við brugðumst vel við og sýndum heimili okkar. Gesturinn hugsaði: Þið búið vel. Fátækrahverfin eru innra með yður.“ Þannig yrkir Tómas Tranströmer, sænska skáldið, staddur á staðnum á milli tilfinninga og vitsmuna þar sem ljóðið kviknar. En hvar eru fátækrahverfin? Búa þau innra með okkur? Hvernig mælum við slíkan viðskiptajöfnuð? Er mikil verðbólga í sársaukanum? Hver er kauphallarvísitala gleðinnar?

Horfðu á myndirnar. Nei, þú sérð ekki fjöruna, þú sérð ekki útsýnið, ekki jökulinn baðaðan sólargeislum eða skýin í gráma sínum, enda snýst lífið sem lifnar á þessum myndum ekki um fjöruna eða útsýnið, það snýst um þá sem hafa stimplað sig út úr samfélaginu eða verið stimplaðir út úr samfélaginu, nema hvort tveggja sé, afskrifaðir, útskrifaðir, innritaðir, því í þessum heimi bítur orsökin í skottið á afleiðingunni og afleiðingin verður orsök eigin afleiðingar, ef taka má svo heimspekilega til orða um þá eymd sem þarna birtist og vekur í raun mun fleiri spurningar en svör, en stundum er spurningin einmitt svar í heimi sem vill einfalda allt niður í vandamál og býr um leið til fleiri vandamál, kannski af því að við vandamálinu er til lausn sem ekki er hægt að útskýra, aðeins upplifa, svipað og enginn veit hvað er að vera vitskertur nema sá sem hefur reynt það, en hvað veit hinn vitskerti, og raunar má segja að sá sem missir vitið hafi eitthvað að missa á meðan hinir vitlausu halda í vit sitt og þykjast hafa vit á öllu.

Ef svarið býr í tungumálinu segja myndirnir okkur hið ósagða og eru þar með sitt eigið tungumál, þær segja eitthvað allt annað, að komast af, að framlengja flóttann, að þiggja ekki hjálp, eða hvað það er sem lífið snýst um. Það er helst að mávunum sé gefið að éta eða er það fegurð sem er horfin, útsprungin rós, minning um tíma, sprauta sem vomir yfir æðum einsog fugl í leit að æti á sorphaug. Við horfum ekki á jökulinn á vappi um blámann, njótum ekki norðurljósanna í slæðudansi fegurðarinnar og hér eru engin gömul hús, yndisleg handa túristum, krúttleg einsog álfar. Hér er enginn Bono, hér er engin Björk, ekkert sem eykur hagvöxt eða þjóðarframleiðslu, engin landkynning. En jafnvel hér grasserar afneitunin: „Ok … ég skal viðurkenna það að ég fór í meðferð í fyrra, en ég er samt ekki alkóhólisti! Þeir eru allaf grenjandi, en ég grenja aldrei!” eða … „Æi … ég er orðin rosalega þreytt á þessu … þetta er svo ömurlegt! En hvað á ég að gera? Ég er búinn að fara í margar meðferðir og ekki virkar það fyrir mig. Kannski ætti ég að reyna eitthvað annað!” 

Það gerist nefnilega ekkert á galeiðunni, á geðspítalanum, í gámunum sem kallaðir eru smáhýsi og minna helst á salerni á útihátíð, og einsog sjá má á myndunum er umgangurinn ekkert ósvipaður og eftir villta útihátíð, líkt og einhver þjóðflokkur hafi brotlent þarna í fjörunni. Samt er þetta ekkert annað en slömm, velhannað slömm, einsog verkfræðiálit, til að fela fyrir okkur veruleikann eða sjálft sig fyrir veruleikanum. Samt er þetta úrræði, að mörgu leyti frábært úrræði, það bara virkar ekki frekar en svo mörg önnur úrræði, þótt það sé ekki mitt að dæma, ekki okkar sem stöndum utan hringsins og höfum engin önnur viðmið en okkar þótt mælikvarði hamingjunnar sé afstæður og glæpur á einum stað sé dyggð á öðrum. Hér er samt einhver tómleiki sem berst gegn innihaldinu, gegn póesíunni í lífinu, gegn menningu hjartans og hugans. Þetta er fátækt jafnt hið innra sem ytra.

„Drykkjusýki er sjúkdómur. Sjúkdómur sem ekki verður læknaður að fullu, aðeins gerður óvirkur,“ segir læknirinn, en hvað segir nunnan, hvað segir ráðgjafinn, hvað segir hirðfíflið eða stjórnmálamaðurinn. Togaðu mig lengra niður, ég ætla að rífa mig upp á hárinu. Ég ætla að fylla hatt minn af myrki og henda honum í sjóinn. Ég ætla að gera byltingu þar sem ekkert breytist. Vandamálin verða eftir hjá nefndinni en nefndin var lögð niður vegna niðurskurðar eða fór hún í sumarfrí. Nei, guð fer aldrei í sumarfrí, sagði presturinn, bara prestarnir, hirðfíflin og ráðgjafarnir, og auðvitað læknarnir. Þarna er eymdin, börnin tekin, hjartastopp, glæpir, en samt eru allir fávitar sem vinna á féló. „Ég má þakka guði fyrir að vera á lífi, þau hjálpuðu mér svo á slysadeildinni.“ Hvað segja lögin: „… en allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu …“ Það segja lögin sem gilda bara þar sem þau gilda. 

Nei, ég er ekki dómari, en þarna hefur einhver verið dæmdur, af samfélaginu, einskisleikanum eða guði, hvað veit ég um það? Allir eiga rétt á hjálp, en er hægt að hjálpa öllum? „Svo tók helvítis læknirinn af mér mánaðarskammtana, svo núna þarf ég alltaf að redda mér annars staðar.” Var læknirinn hræddur? Voru þá allar umbæturnar sem barist var fyrir í rauninni afturför? Hvernig ætla álitsgjafarnir að taka á því? Já, þetta er auðvitað allt helvítis lækninum að kenna. Ekki mér. Engu að síður höfum við séð fólk rífa sig úr þessum aðstæðum, við höfum séð kraftaverk gerast, við vitum að það er til lækning, það er til lausn, málið er bara að þiggja hana. Sumir vilja frekar láta vista sig á geðsjúkrahúsi, fá furðulegar sjúkdómsgreiningar, allt frekar en að viðurkenna sjúkdóminn, allt frekar en að þiggja hjálp. Geðveiki eða dauði! Um hvað snýst máið? Geðveiki eða dauða. Þeir sem sökkva í fen næturinnar geta ekki dregið sig upp á hárinu en þeir geta hrópað á hjálp og þeir verða dregnir upp úr feninu og þá öðlast þeir kannski vilja til að draga aðra upp úr feninu og þannig koll af kolli þar til hringur einskisleikans rofnar og við roðflettum myrkrið og afhausum eymdina.

Einar Már Guðmundsson – 2014

“Við erum tvö verstu “keisin” á Íslandi … alverstu sko! Ingvi, hann er náttúrulega bara róni … og hann getur dáið bara svona … í fráhvörfum sko! En það er bara ein junk-sprauta hjá okkur!”

“hann var alveg brjálaður … stakk mig líka í lærið og ég má þakka Guði fyrir að vera á lífi! þau hjálpuðu mér svo á slysadeildinn, en ég veit það ekki, þetta var allt svo mikið rugl!”

“Það vita allir að við erum að deyja. Er það næsta skot, eða þarnæsta skot, eða bara eitthvað skotið? Og þá yrðum við dáin! Þetta er rúlletta maður!”

“Það kom ljósmyndari heim og tók myndir af okkur, sem fóru út um allt land. En hugsaðu þér! einn er morðing, tveir eru í fangelsi og einn er dauður úr neyslu … Við erum framtíðin … og mynd af mér! Hann [ljósmyndarinn] tók svo vitlaust lið maður […]”

„Þú ert með hækjur!“ „Já, ég er með eina hækjuna hérna, ég á að vera með tvær en ég finn ekki neitt. „Af hverju var verið að brjóta á þér fæturna?“ „Æiiiii … ég var að ríða mömmu hans! Ég er bæði lærbeinsbrotinn og ökklabrotinn … svo var mér dröslað í einhvern sófa og þar var ég fokking buffaður maður …“

“Ok! Ég skal viðurkenna það að ég fór í meðferð í fyrra, en ég er samt ekki alkóhólisti! Þeir eru allaf grenjandi … en ég grenja aldrei!”

“Ég er búinn að vera fullur uppá dag í þrjú ár … eða næstum því! En ég er líka orðin svolítið þreyttur á þessu … mig langar til að hætta þessu, en veit ekki hvort ég höndli það … það er að segja; taka út þynnkuna, hún verður svo djöfulli slæm!”

“Hún tók beittan hníf og svo skar hún hana á háls, allavega var blóð út um allt … hún var alveg snarvitlaus! Það er alltaf eitthvað andskotans vesen í kringum hana. En ég dó bara [áfengisdauða], þannig að ég varð ekki vitni að þessu”

“[…] rotaðist þú ekki? … rotaðist ég ekki! Jú heldur betur! Ég gat ekki sagt neitt í hálftima eða fjöritíu mínútur. Lögreglan tók mig og ég var í járnum alla nóttina … alla fokking nóttina! Ég hef aldrei litið svona illa út … og það á afmælinu mínu!”

Lög nr. 40/20071. gr.  Lög þessi taka til skipulags heilbrigðisþjónustu. Markmið þeirra er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði í samræmi við ákvæði laga þessara, lög um almannatryggingar, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á.

Lög nr. 33/1944 76. gr. Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar ogsambærilegra atvika. Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

„Búseta er fyrir fjóra til átta einstaklinga og pör í fjórum smáhýsum. Markmið með smáhýsum er að veita einstaklingum og pörum sem erfiðlega hefur gengið að útvega búsetuúrræði vegna áfengis- og/eða vímuefnaneyslu, annarra veikinda eða sérþarfa öruggt húsnæði. Íbúar þiggja stuðning í formi innlita og eftirlits sem grundvallast á dvalarsamningi. Starfsmaður í 100% starfshlutfalli sinni stuðningi í smáhýsum.“ (Tekið af vef Reykjavíkurborgar)

  • Grandi, 11. jan 2013 © GHsvendsen

„Ég held að enginn maður hafi skrifað jafn margar bækur og ég skrifaði, enginn hafi verið jafn duglegur við að finna upp hluti og ég og enginn hafi verið jafn mikil fyllibytta og ég – en samt sést ekki neitt á mér … “ (Ingvi, um sjálfan sig)